Barist gegn mengun í Peking

11. janúar 2017 - 15:21

Í Peking, höfuðborg Kína, er verið að stofna nýja lögreglusveit til að koma í veg fyrir loftmengun.

Borgarstjóri Peking segir að stór hluti loftmengunar í Peking stafi af því að lögum og reglum sé ekki fylgt. Hann lofar því að notkun kola í borginni verði minnkuð um 30% á þessu ári, en kolabruni skapar gríðarlega loftmengun.
Í vor á að loka eina raforkuveri borgarinnar sem enn notar kol, 300 þúsund gamlir bílar verða teknir úr umferð, mengandi verksmiðjum verður lokað og bæta á búnað sem hreinsar loftið í um tvö þúsund öðrum verksmiðjum. Þar að auki verður búnaði til að hreinsa andrúmsloftið komið fyrir í skólum og leikskólum borgarinnar, til að vernda heilsu barna.
Skyggni hefur verið lítið í Peking undanfarið því loftmengun er svo mikil.