Blár apríl

05. apríl 2018 - 16:00

Blár apríl er nú hafinn í fimmta sinn en það er stuðningsátak sem miðar að því að auka skilning og þekkingu á einhverfu barna.

Á mánudaginn var Alþjóðadagur einhverfu og á morgun, 6. apríl er Blái dagurinn. Þá er fólk hvatt til að klæðast bláum fötum. Styrktarfélag barna með einhverfu stendur fyrir Bláum apríl en markmið félagsins er að vekja athygli á einhverfu og safna fé til styrktar málefnum sem hafa áhrif á börn með einhverfu og fjölskyldur þeirra.

Í fyrra var gerð stutt teiknimynd um einhverfu barna með hjálp Ævars vísindamanns og nú er búið að gera nýja mynd. Hún fjallar um Maríu sem fræðir okkur um einhverfu. 

Blái dagurinn endar svo með tónleikum um kvöldið í Gamla bíó. Þar koma fram Ylja, Birgir, Hafdís Huld, AmabAdamA, Snorri Helgason og Moses Hightower og kynnir verður Ævar Þór Benediktsson. Allar tekjur af miðasölunni renna óskiptar til málefnisins.