Borgaralaun í Finnlandi

04. janúar 2017 - 17:01

Finnar hafa tekið upp á þeirri nýjung að greiða svokölluð borgaralaun. Hugmyndin er að ríkið sjái til þess að allir fái nægan pening til að lifa af, sama hvað viðkomandi gerir í lífinu. Til að byrja með fá tvö þúsund atvinnulausir Finnar launin í tvö ár, svo hægt sé að skoða hvaða áhrif þau munu hafa.

Borgaralaun voru eitt helsta kosningaloforð Miðflokksins, sem vann í síðustu þingkosningum. Þau snúast um að sjá til þess að allir borgarar hafi nóg pening til að lifa af. 
Miðflokkurinn lofaði að borga öllum Finnum borgaralaun, en það er of dýrt, svo þess vegna stefna stjórnvöld bara á að borga láglaunafólki og þeim sem þiggja bætur frá ríkinu borgaralaun.
Tvö þúsund atvinnulausir Finnar voru valdir af handahófi til að fá borgaralaun í þessari fyrstu tilraun. Þeir fá um 90 þúsund krónur á mánuði og það verður fylgst með hvort það hafi áhrif á atvinnuleit þeirra eða þátttöku í samfélaginu.
Tilraunin á að verða til þess að umræða um borgaralaun byggist á reynslu og staðreyndum, en ekki persónulegum skoðunum.