Ekki gefa öndum brauð

29. maí 2017 - 17:08

Fyrstu andarungar sumarsins eru skriðnir úr eggjum við Reykjavíkurtjörn og Reykjavíkurborg hefur beðið borgarbúa um að hjálpa við að auka líkur á að andarungarnir við Tjörnina dafni vel. Snorri Sigurðsson, líffræðingur hjá Reykjavíkurborg, biður fólk um hætta að gefa öndunum brauð.

Snorri segir að það séu þrjár ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi er það algjör óþarfi, því fuglarnir hafa feykinóg af æti á sumrin.
Í öðru lagi sækja mávar í brauðið og ef það væri hætt að gefa brauð hefðu þeir minni ástæðu til að koma á Tjörnina. Ef mávunum fækkar minnka líkurnar á að þeir éti andarungana.
Í þriðja lagi, ef mávunum fækkar verður minna um óhreinindi og fuglaskít í og við Tjörnina, sem myndi minnka svokallaða næringaefnamengun í Tjörninni. Það er því best fyrir endurnar að við borðum brauðið bara sjálf.