Evrópumót kvenna í sumar

31. maí 2017 - 16:56

Í sumar er von á annarri fótboltaveislu, rétt eins og síðasta sumar, því í júlí tekur kvennaliðið okkar þátt í Evrópumótinu í Hollandi. Mótið hefst 16. júlí, en fyrsti leikur stelpnanna okkar verður gegn Frakklandi 18. júlí og hann verður sýndur beint á RÚV.

Þetta er í þriðja sinn í röð sem stelpurnar keppa í lokakeppni EM. Ísland varð í neðsta sæti í sínum riðli á EM í Finnlandi 2009 en komst svo í átta liða úrslit á EM í Svíþjóð árið 2013. Þær unnu svo riðilinn sinn í undankeppninni og það má því búast við áframhaldandi framförum og spennandi leikjum.
Ísland er í C-riðli með Frakklandi, Austurríki og Sviss og fyrsti leikurinn, gegn Frökkum, fer fram í Tilburg. Næsti leikur er gegn Sviss í Doetinchem 22. júlí og svo mætum við Austurríki í Rotterdam 26. júlí.
Miðasala fyrir íslenska stuðningsmenn hefur farið vel af stað, svo það má gera ráð fyrir að stelpurnar fái góðan stuðning úr stúkunni, en þar að auki verður örugglega svakaleg stemmning hérna heima.