Fíflagangur á Vonarstræti

09. janúar 2017 - 17:22

Á laugardaginn var haldið upp á alþjóðlegan dag fíflagangs á Íslandi með því að setja upp fíflagangbrautarskilti á Vonarstræti og hvetja fólk til að skemmta sér og öðrum með því að ganga yfir götuna með fíflagang.

Þetta var í fyrsta sinn sem haldið er upp á daginn hér á landi, en hann á uppruna sinn að rekja til frægs gamanatriðis eftir breska grínhópinn Monty Python, sem hefur verið vinsæll í áratugi. Dagurinn snýst um að hafa gaman af fíflagangi, en í þessu samhengi vísar orðið til þess að tileinka sér kjánalegt göngulag.
Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar, steig fyrstu skrefin í fylgd skemmtikrafta eins og Steinda Jr., Björgvins Franz, Jakobs Frímanns Magnússonar og fleiri. 
Dagurinn var tileinkaður öllum sem berjast fyrir bættri geðheilsu og í ár var lögð áhersla á starf Geðhjálpar, en þau bjóða fría ráðgjöf fyrir alla sem líður illa.