Fjárhættuspil auka hættu á svindli í íþróttum

05. janúar 2017 - 16:29

Ný rannsókn meðal 700 leikmanna sýnir að um þrír af hverjum tíu íslenskum knattspyrnumönnum veðja peningum á íþróttaleiki í hverri viku eða oftar. Af þeim hefur einn af hverjum fimm veðjað á eigin leiki.

Knattspyrnusamband Íslands bannar leikmönnum sem eru á samningi við félög að veðja á úrslit allra leikja á Íslandi. Alls hafa um 7 af hverjum 100 veðjað á leiki sem þeir tóku þátt í.
Hættan er að leikmenn freistist til að hafa áhrif á úrslitin, ef nógu miklir peningar eru í spilinu. Ef leikmenn geta til dæmis grætt háar fjárhæðir með því að tapa leik gætu þeir reynt minna á sig til að láta það gerast. 
Dæmi um þetta er þegar 16 ára gömlum unglingalandsliðsmanni í körfubolta var boðin nýjasta tegundin af snjallsíma fyrir að hitta ekki úr fyrsta vítaskoti sínu í leik með landsliðinu fyrir nokkrum árum. Sá sem bauð símann ætlaði að græða á mistökunum. 
Rannsóknin segir ekkert um hvort fjárhættuspil hafi þegar haft áhrif á úrslit, en sýnir að hættan er greinilega til staðar.