Flöskuskeytin á flakki í ár

10. janúar 2017 - 16:08

Fyrir nákvæmlega ári síðan í dag setti Ævar vísindamaður tvö flöskuskeyti í sjóinn rétt fyrir sunnan Ísland. Eftir 14 þúsund kílómetra ferðalag stefna skeytin nú í átt að Bretlandseyjum.

Skeytin eru samstarfsverkefni Ævars og Verkís, en þau eru búin GPS-sendum, svo hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra. Rafhlaðan í þeim endist í tvö ár og er því hálfnuð, svo skeytin enda vonandi ferðalag sitt innan 12 mánaða, svo við getum séð hvar þau enda.
Fyrst fóru þau í stóran hring við Grænland, svo tóku þau stefnuna til Kanada, en sneru svo við og tóku stefnuna þvert yfir Atlantshaf. Nú eru þau ekki langt frá ströndum Skotlands. Skeytin voru lengi í samfloti en nú er komin nokkur fjarlægð á milli þeirra, þó þau stefni að vísu enn í sömu átt.
Ferðalag skeytanna er orðið um 14 þúsund kílómetra langt, sem er eins og að fara meira en 10 sinnum hringinn í kringum Ísland og enginn veit hvar það endar. Tilraunin sýnir að flöskuskeyti geta ferðast ótrúlega langa leið, en um daginn sögðum við frá skeyti sem fannst eftir 11 ára ferðalag í sjónum.