Fyrsta íslenska konan á topp Everest

23. maí 2017 - 16:01

Á laugardagskvöld varð Vilborg Arna Gissurardóttir fyrsta íslenska konan til að komast upp á tind Everest-fjalls, hæsta fjalls í heimi. Vilborg sagði að það væri tryllt að vera þarna uppi.

Vilborg náði tindinum klukkan korter yfir þrjú um nótt að íslenskum tíma. Vilborg lagði af stað upp fjallið rúmlega fjórum dögum áður og síðasti kaflinn sem þurfti að klífa tók 11 klukkutíma. Það var mikill vindur og umferð á fjallinu, en ferðin gekk samt mjög vel. 
Vilborg fór ein, en hún fékk hjálp við að komast upp á toppinn frá heimamanni sem heitir Tenji og vinnur við að hjálpa fólki upp.
Vilborg hefur nú gengið á hæsta tind hverrar heimsálfu og árið 2013 varð hún fyrst Íslendinga til þess að ganga ein á Suðurpólinn, sem tók hana 60 daga.
Áður hafa sex Íslendingar komist á topp Everest-fjalls, þeir fyrstu fyrir einmitt 20 árum, 21. maí 1997. Einn þeirra fyrstu, Björn Ólafsson, segir að það sé mjög erfitt að vera í svona mikilli hæð og það taki líkamann marga mánuði að jafna sig eftir svona ferð.