Golden Globe verðlaunin

10. janúar 2017 - 16:09

Kvikmyndin La La Land sópaði til sín verðlaunum á Golden Globe verðlaunahátíðinni, sem fór fram á sunnudagskvöld. Golden Globe, eða Gullni hnötturinn, eru mjög virt kvikmynda- og sjónvarpsverðlaun sem þykja gefa góða hugmynd um hvað mun ná langt á Óskarsverðlaununum.

La La Land fékk öll sjö verðlaunin sem hún var tilnefnd til, meðal annars var hún valin besta myndin í flokki gaman- eða söngvamynda. Kvikmyndin Moonlight var valin besta dramamyndin og Zootopia var valin besta teiknimyndin.
Atlanta fékk verðlaun sem besta gamanþáttaröðin og The Crown voru valdir bestu dramaþættirnir.
Leikkonan Meryl Streep fékk heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til kvikmynda og notaði tækifærið til að gagnrýna Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna. Hún sagði að þegar valdamikill maður gerir lítið úr fólki verði það til þess að fólk fari almennt að gera það líka, sem er ekki gott.
Að lokum vitnaði hún í leikkonuna Carrie Fisher, sem lést fyrir skömmu - en hún sagði að listsköpun geti hjálpað þegar manni líður illa. Listsköpun getur nefnilega stundum hjálpað fólki að fá útrás fyrir slæmar tilfinningar og látið því líða betur. Sumir segja m.a.s. að besta listin verði til eftir erfiða tíma.