Íslenskir karlar lifa lengst af norrænum körlum

09. janúar 2017 - 17:21

Íslenskir karlmenn lifa lengst af öllum norrænum körlum, samkvæmt nýrri tölfræði yfir heilsu fólks á Norðurlöndunum.

Meðalaldur íslenskra karlmanna er 80,8 ár. Það er sem sagt sá aldur sem meðalmaður er líklegur til að ná. Næstir á eftir íslenskum karlmönnum eru sænskir karlmenn, en meðalaldur þeirra er 80,1 ár. Norðmenn eru í þriðja sæti, en meðalaldur norskra karlmanna er 79,7 ár, eða rétt rúmlega ári styttri en meðalaldur íslenskra karla.
Konur lifa almennt lengur en karlar og það endurspeglast í tölfræðinni. Meðal kvenna eru Finnar í fyrsta sæti, en meðalaldur finnskra kvenna er 83,8 ár. Sænskar og íslenskar konur eru svo jafnar með 83,7 ár.
Heilsa byggist auðvitað á mörgum þáttum, en þessar tölur sýna að Íslendingar eru almennt við góða heilsu.