Kóðanum 1.0 er lokið

31. maí 2017 - 16:59

Átaksverkefninu Kóðanum 1.0 lauk fyrir skömmu, en átakið hófst snemma í október og miðaði að því að efla skilning og áhuga barna á forritun. Á lokahófi Kóðans fengu Klébergsskóli og Hofsstaðaskóli sérstaka viðurkenningu og fjórir krakkar fengu einstaklingsverðlaun.

Ævar vísindamaður og Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, afhentu verðlaunin. Skólarnir fengu viðurkenningarskjöl fyrir öfluga þátttöku nemenda og krakkarnir fengu gjafabréf og tölvu sem þeirra skóli fær til eignar. 
Öll börn í 6. og 7. bekk fengu gefins forritanlega smátölvu sem heitir Microbit til að taka þátt í átakinu, sem var samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Menntamálaráðuneytis, Menntamálastofnunar og KrakkaRÚV. Átakið fór af stað því það er mikilvægt að kynna forritun fyrir börnum, þar sem það verður mikil þörf fyrir fólk sem hefur þekkingu á forritun í framtíðinni.Tölvurnar voru notaðar til að leysa ýmis forritunarverkefni sem birtust á vef KrakkaRÚV.
Við þökkum öllum flottu krökkunum um allt land fyrir þátttökuna í Kóðanum 1.0 og óskum Klébergsskóla og Hofsstaðaskóla til hamingju með árangurinn.