Kolanotkun eykst á Íslandi

09. janúar 2017 - 17:25

Kolanotkun í stórum verksmiðjum hefur aukist verulega á Íslandi á síðustu árum. Íslendingar hafa ekki notað jafn mikið af kolum í meira en 70 ár.

Ísland er þekkt fyrir hreina náttúru og umhverfisvæna orku. En raunin er sú að notkun á kolum, sem eru mjög óumhverfisvæn, er að aukast hratt.
Kolanotkun hefur tvöfaldast á Íslandi síðan árið 1993, en tvö stór fyrirtæki hafa notað þau í verksmiðjum sínum. Annað fyrirtækið hefur nú lokað, en samt heldur kolanotkunin áfram að aukast, því í fyrra var kísilverksmiðja opnuð sem brennir kol í framleiðslu sinni og í lok árs á að opna kísilver sem gerir það sama.
Árið 2015 voru 139 þúsund tonn af kolum notuð á Íslandi, en Orkustofnun spáir því að árið 2018 verði notuð 224 þúsund tonn, sem er 60% meira en árið 2015.
Kolanotkun á hvern Íslending er þó miklu minni en í löndum þar sem þau eru notuð mest. Hver Íslendingur notar til dæmis bara um fjórðung af því sem hver Kínverji notar á ári.