Landsliðið keppir í Kína

11. janúar 2017 - 15:23

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í Nanning í Kína að keppa á alþjóðlegu æfingamóti sem heitir China Cup. Auk Kína og Íslands taka Króatía og Síle þátt í mótinu.

Íslenska liðið spilaði opnunarleik mótsins í hádeginu í gær, gegn gestgjöfunum, Kína. Ísland vann leikinn 2-0 og er því komið í úrslit. Kjartan Henry Finnbogason og Aron Sigurðsson skoruðu mörk Íslands, bæði í seinni hálfleik.
Ísland spilar næst á sunnudagsmorgun, í úrslitaleiknum.
Að þessu sinni eru allir leikmennirnir í landsliðshópnum frá félagsliðum á Norðurlöndunum og því eru sjö nýir leikmenn í hópnum.
Þeirra á meðal er Albert Guðmundsson, en bæði mamma hans og pabbi og afi hans og langafi hafa sömuleiðis leikið með íslenska landsliðinu í fótbolta.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, segir umgjörð mótsins til fyrirmyndar og að það sé frábært að fá að taka þátt. Ekki síst fyrir unga stráka sem eru að spila sína fyrstu landsleiki, en leikurinn í gær fór fram á fullum 60 þúsund manna velli.