Pönksafn Íslands opnað

03. nóvember 2016 - 16:57

Pönksafn Íslands var opnað í gær á Bankastræti núll, þar sem áður var kvennaklósett. Stofnendur safnsins segja þetta besta mögulega staðinn fyrir pönksafn.

Pönk er tónlistarstefna sem naut mikilla vinsælda snemma upp úr 1980. Hún einkenndist af uppreisn gegn viðurkenndum hugmyndum um klæðaburð, stíl, framkomu, tónlistarsköpun og hljóðfæraleik. Áherslan var lögð á orkumikla tónlist, sviðsframkomu og það að allir gætu gert eitthvað, ef þeir bara vildu. 
Safnið verður tileinkað sögu pönksins og tíðarandanum sem því fylgdi. Pönksenan á Íslandi var mjög lífleg og ól af sér marga af frægustu tónlistarmönnum Íslandssögunnar.
Almenningsklósettið við Bankastræti, sem hefur líka verið kallað Núllið, var fyrst opnað fyrir Alþingishátíðina 17. júní 1930 og var opið til ársins 2006. Síðan hefur rýmið staðið autt, fyrir utan myndlistasýningu sem var haldin í fyrra. Stofnendur safnsins segja að það sé ekki hægt að finna betri stað fyrir pönksafn.
Pönkgoðsögnin Johnny Lydon, betur þekktur sem Johnny Rotten, söngvari hljómsveitarinnar Sex Pistols, var sérstakur gestur opnunarinnar, þar sem hann sagði að það besta við pönkið væri hann sjálfur.