Sæljón greip litla stúlku

23. maí 2017 - 16:00

Sæljón í höfninni við borgina Richmond í Kanada olli miklu uppnámi þegar það greip í kjól lítillar stúlku og kippti henni ofan í hafið. Atvikið minnir á mikilvægi þess að sýna villtum dýrum virðingu og nálgast þau með varúð.

Sæljónið hafði vakið athygli hóps fólks, sem stóð á bryggjunni og voru að virða það fyrir. Skyndilega glefsaði sæljónið í átt að litlu stúlkunni og tók sig svo til og greip í kjólinn hennar með kjaftinum og kippti henni ofan í hafið. Eldri maður stökk á eftir henni án þess að hika og náði henni strax úr hafinu. Enginn meiddist, en fólki var mjög brugðið.
Fólk er duglegt að gefa sæljónum að borða við þessa bryggju, sem hefur skapað mikinn vanda. Hungruð og villt sæljón eru nú stöðugt á sveimi við höfnina í von um að fá matarbita. Ný skilti sem vara fólk við hættunni sem fylgir þessum hættulegu rándýrum voru sett upp á sunnudag, eftir atvikið. Þessi uppákoma minnir á hversu mikilvægt er að fara varlega í kringum villt dýr.