Segja Rússa hafa skipt sér af kosningum

10. janúar 2017 - 16:10

Bandarískar leyniþjónustur segja að rússnesk stjórnvöld hafi notað tölvuárásir og áhrif á fjölmiðla til að vinna gegn framboði Hillary Clinton til forseta Bandaríkjanna og hjálpa Donald Trump að sigra.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá bandarískum leyniþjónustum. Samkvæmt skýrslunni var markmið Rússa að minnka trú fólks á kerfin sem eru notuð í kosningum í Bandaríkjunum og gera Clinton minna spennandi frambjóðanda.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, er sagður standa á bak við þetta. Skýrslan segir að hann sé ósáttur við Bandaríkin af ýmsum ástæðum og að honum sé sérstaklega illa við Hillary Clinton.
Skýrslan heldur því líka fram að eftir góðan árangur í Bandaríkjunum séu Rússar líklegir til að reyna að skipta sér af kosningum í öðrum löndum.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, var ekki tilbúinn til að trúa þessu til að byrja með, en virðist nú sannfærður um sök Rússa. Hann segist ætla að fá stjórnendur leyniþjónustustofnanna í Bandaríkjunum til að gefa sér ráðleggingar um hvernig eigi að bregðast við afskiptum Rússa.