Stjörnustríðið er fertugt

29. maí 2017 - 17:07

Á fimmtudag í síðustu viku varð einn vinsælasti kvikmyndabálkur sögunnar fertugur. Fyrsta Stjörnustríðsmyndin var frumsýnd 25. maí 1977 en bálkurinn lifir enn góðu lífi og nýjasta myndin kom út fyrir síðustu jól.

Fyrsta Star Wars myndin naut strax mikilla vinsælda. Því var ákveðið að gera framhald og tvær nýjar Stjörnustríðsmyndir komu út á næstu sex árum. Í þessum myndum birtust persónur sem hafa öðlast mikilvægan sess í vestrænni menningu.
Sérfræðingar segja að leyndarmálið á bak við velgengni fyrstu myndarinnar sé að hún beiti sígildu frásagnarformi vel. Hún segi frá mögnuðum leiðangri þar sem hættan er við hvert fótmál, en von sé um heiður eða fjársjóð í sögulok.
Snemma á þessari öld komu svo þrjár nýjar Stjörnustríðsmyndir, sem gerðust á undan þeirri fyrstu og á síðustu tveimur árum hófst nýr þriggja mynda bálkur, auk þess sem við fengum hliðarsögu sem gerist rétt á undan allra fyrstu myndinni. Það má því líklega segja að Stjörnustríðsmyndirnar séu á besta aldri og eigi nóg eftir.