Úrslit Krakkakosninganna

01. nóvember 2016 - 16:28

Í síðustu viku fóru fram krakkakosningar meðfram alþingiskosningum fullorðinna. Þá fengu börn landsins að kjósa þá stjórnmálaflokka sem þeim leist best á. Sjálfstæðisflokkurinn fékk mesta kosningu, eins og hjá fullorðnum.

Næstum einn af hverjum fjórum krakkakjósendum kaus Sjálfstæðisflokkinn. Næstvinsælasti flokkurinn var flokkur Pírata, sem fékk 15,1 prósents fylgi og í þriðja sæti var Alþýðufylkingin með 13,5 prósent. Flokkur Pírata fékk líka mikið fylgi í alþingiskosningunum og varð þriðji stærsti flokkurinn, en Alþýðufylkingin var með lítið fylgi og kom engum á þing. Hjá fullorðnum fékk flokkur Vinstri grænna næstmesta kosningu, en hann lenti í fjórða sæti í krakkakosningunni.
Það voru tveir flokkar sem komust á Alþingi sem krakkarnir hefðu ekki samþykkt, Samfylkingin og Viðreisn. Samfylkingin var ekki ánægð með sína frammistöðu í kosningunum, þó þau kæmu fólki inn á þing, en Viðreisn fékk fleira fólk á þing en gert var ráð fyrir og gæti orðið hluti af ríkisstjórninni.