Vínyll verður vinsælli

04. janúar 2017 - 17:03

Sala á hljómplötum á vínyl hélt áfram að aukast í Bretlandi árið 2016, níunda árið í röð. Samtals seldist 53% meira en árið 2015. Það hafa ekki selst svo margar vínylplötur síðan árið 1991.

Þróunin hefur verið svipuð í Bandaríkjunum. Þar seldist minna af tónlist í stafrænu formi og geisladiskum, en á móti seldist meira af vínyl og notkun á tónlistarveitum á netinu, eins og Spotify og Apple Music, tvöfaldaðist.
Meiri umsvif og meiri peningar voru á ferð í tónlistarmarkaðnum í Bandaríkjunum en árið áður. Þetta kemur í kjölfar erfiðleika á tónlistarmarkaðnum, en fyrir nokkrum árum misstu tónlistarmenn stóran hluta af tekjum sínum því fólk stal tónlist svo mikið á internetinu. Sem betur fer er þetta að breytast. Þegar fólki býðst aðgangur að streymiþjónustum sem hafa gríðarlegt safn tónlistar sér fólk enga ástæðu til að stela tónlist.
En af hverju hefur fólk áhuga á vínylplötum þegar geisladiskar og streymiþjónustur eru í boði? Margir eru þeirrar skoðunar að þær hljómi allt öðruvísi og betur. Í gamla daga voru plötur líka hljóðblandaðar til að vera spilaðar af vínyl, þannig að mörgum finnst þeir ekki geta heyrt plötur eins og þær áttu að hljóma án þess að spila þær af vínyl.