Kóðinn 1.0

Forritunarleikar fyrir krakka

hexagons

Velkomin/n í Kóðann.

Það er okkur sönn ánægja að fá að afhenda ykkur Micro:bit tölvurnar. Við vonum að þið sjáið ykkur fært um að nýta þær í kennslu hvort sem það er í formi þemadags, strjálla kennslustunda eða í raun eins og ykkur þykir ákjósanlegast. Ef vilji er fyrir nýtingu tölvanna í kennslu geta skólarnir haft umsjón með þeim út skólaárið og afhent nemendum þær síðan í lok skólaársins. Annars ber að afhenda nemendum tölvurnar sem fyrst þannig að þeir fái tækifæri til þess að taka sjálfir fyrstu skrefin inn í heim forritunar og framtíðar.

Kennsla

Á www.kodinn.is undir "Áskoranir" má finna myndbönd undir Æfingabúðir þar sem farið er yfir öll grunnatriði sem þarf til þess að byrja að nota tölvuna. Þar er einnig að finna ítarleg myndbönd og leiðbeiningatexta sem leiða þig í gegnum einföld verkefni.
Undir áskorunum má einnig finna áskoranir sem innihalda myndbönd og textaleiðbeiningar fyrir ýmisleg verkefni.  Þeim lýkur öllum þannig að skorað er á nemandann að bæta einhverju ákveðnu við forriti eða breyta virkni þess á einhvern ákveðinn hátt.

Keppnir

Kóðinn 1.0 eru forritunarleikar fyrir krakka í grunnskóla. Leikarnir fara fram frá nóvember - maí og þar takast krakkar á við áskoranir sem tengjast tölvum, forritum, snjallsímum, internetinu og öllu á milli himins og jarðar.

Þrjár aðskildar keppnir verða á þessu tímabili þar sem veitt verða verðlaun á forsendum tækni, sköpunar og lista. Skiptast þær upp í bekkjakeppni 6. bekkjar, einstaklingskeppni 6. bekkjar og svo einstaklingskeppni grunnskólanema þar sem allir í 1.-10. bekk geta tekið þátt.

Nánari upplýsingar um hverja keppni er að finna á vefsíðu Kóðans. Við hvetjum alla til þess að taka þátt burtséð frá getu og hæfni þar sem æfingin skapar meistarann.

Viðburðir

Til stendur að halda vinnusmiðjur á bókasöfnum bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Verkefnahópur í samstarfi við tölvunarfræðideild Háskóla Íslands mun koma að þessum smiðjum og munu þær hefjast eftir áramót og verða rækilega auglýstar eins og annað á vefsíðu Kóðans.

Haldið verður upp á afrakstur skólaársins á lokaviðburði Kóðans í maí þar sem úrslit leikanna verða kynnt og verðlaun afhent. Hver er kóðari ársins? Hvaða skóli er mesti forritunarskóli landsins? Hvaða bekkur átti sniðugustu lausnina? Það verður spennandi að sjá.

Aðstoð

Á döfinni hjá okkur eru þrjú námskeið fyrir kennara. Eitt á höfuðborgarsvæðinu og tvö á landsbyggðinni. Þessi námskeið nýtast bæði kennurum sem vilja styrkja grunnþekkingu sína á tölvunum og þeim sem vilja auka við forritunar og tækniþekkingu sína og þannig opna möguleikann á enn tæknilegri forritunarkennslu með tölvunum.
Ef einhver vandamál kom upp er svo að sjálfsögðu hægt að hafa samband í tölvupósti á kodinn@ruv.is eða í síma 515-3342 eða 692-1198.

Að lokum

Við vonumst til þess að verkefnið muni efla forritunarkunnáttu íslenskra barna og auka vitund þeirra um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, eins og að efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni- og iðngreinum. Ef þú sem kennari þarfnast einhverja upplýsinga, nánari kennslu eða aðstoðar ekki hika við að hafa samband á kodinn@ruv.is og við munum leggja okkur fram við að leysa það.

Með kærri kveðju, Kóðinn