Kóðinn 1.0

Forritunarleikar fyrir krakka

hexagons

Um Kóðann

Kóðinn 1.0 eru forritunarleikar fyrir krakka í 6. og 7. bekk. Leikarnir fara fram frá október - maí og þar takast krakkar á við áskoranir sem tengjast tölvum, forritum, snjallsímum, internetinu og fleiri verkefnum sem öll tengjast forritun.
 Forritunaráskoranirnar tengjast Micro:bit smátölvunni en hana geta allir krakkar í 6. bekk fengið og forritað það sem þeim dettur í hug. Á meðan leikarnir standa bjóðum við svo upp á alls kyns fræðsu og viðburði. Ævar vísindamaður hefur búið til tuttugu örþætti um tölvur og forritun sem að flestir ættu að hafa gagn og gaman af.

Í lok leikanna verður haldinn stór og flottur lokaviðburður þar sem úrslit leikanna verða kynnt. Hver er kóðari ársins? Hvaða skóli er mesti forritunarskóli landsins? Hvaða bekkur átti sniðugustu lausnina? Það verður spennandi að sjá.
Allar áskoranirnar og leiðbeiningar má finna heimasíðu Kóðans 1.0 á KrakkaRÚV.is. Við hvetjum alla skóla til að taka þátt. 

Markmið

Markmið verkefnisins er að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna. Auka vitund þeirra um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni og iðngreinum í samræmi við áherslur í aðalnámskrá grunnskóla. Verkefnið felst í micro-bit smátölvunni þar sem er horft sérstaklega til nemenda í 6. og 7. bekk grunnskóla. Ef áhugi er fyrir hendi geta skólar á sama tíma sótt um að fá micro-bit til að vinna með í skólastarfinu fyrir aðra nemendahópa. 
Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er forritun einn af þeim hæfnisþáttum sem þar er tilgreindur. Við lok grunnskóla eiga þeir meðal annars að geta nýtt hugbúnað við forritun og miðlun þekkingar á fjölbreyttan og skapandi hátt. Forritun er jafnframt órjúfanlegur þáttur í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi á tímum örrar þróunar í upplýsinga- og samskiptatækni. Á undanförnum árum hefur þörf atvinnulífsins fyrir einstaklinga sem hafa tileinkað sér hæfni í forritun farið ört vaxandi. Sú þörf afmarkast ekki við fyrirtæki í tölvuiðnaðinum heldur er vandfundin sú atvinnugrein þar sem tölvutækni kemur ekki við sögu. Því er mikilvægt veganesti fyrir nemendur að þeir hafi kynnst forritun í skyldunámi. Í þessu skyni hafa ýmsir aðilar í íslensku samfélagi tekið höndum saman um að styðja við þetta verkefni til að auka tækifæri grunnskólanemenda að fást við verkefni á sviði forritunar með aðgengilegum og markvissum hætti með sérstökum smátölvum.