Mjálmaðu nú kisa mín

Í stuttu máli

Allir sitja í hring og einn er í miðjunni með bundið fyrir augun. Sá sem er hann sest ofan á annan og á að reyna að giska hver það er þegar viðkomandi mjálmar.

Leikreglur

Þátttakendur setjast hver á sinn stól og raða sér í hring.

Einn er fenginn til að vera hann og er trefill bundinn um augu hans.

Einn þátttakandinn tekur að sér að snúa honum í hring og sest síðan sjálfur á stól.

Sá sem er hann á að þreifa sig áfram þar til hann finnur einhvern og sest ofan á hann.

Þegar hann er sestur segir hann "Mjálmaðu nú kisa mín" og á þá sá sem hann settist á að mjálma og er það gjarnan gert ámátlega.

Þá má sá sem er hann giska á hver mjálmar.

Giski hann rétt eru höfð hlutverkaskipti.

Hægt er að setja reglur um það að sá sem er hann megi giska þrisvar sinnum eða jafnvel eins oft og menn vilja.

Allir sem sitja í hringnum verða að sýna stillingu því ef þeir hlæja og flissa koma þeir strax upp um sig.

Þegar sá sem er hann hefur giskað rétt og næsti er tekinn við er nauðsynlegt að allir keppendurnir standi upp og skipti um stóla þannig að sá sem er hann muni ekki hvar þeir sátu.

Einnig er nauðsynlegt að keppendurnir þekki hvern annan þannig að þeir þekki röddina í þeim.

Góða skemmtun!

Upplýsingar

Börn úr 3. - G Hvassaleitisskóla sýna Mjálmaðu nú kisa mín.

Stundin okkar 2003.01.26 : 18. þáttur