Saga tölvunnar: Enigma vélin og dulmál

Hefurðu einhvern tímann reynt að búa til dulmál og senda leyniskilaboð til vina þinna? Eða fundið falin skilaboð einhvers staðar sem þú veist að eru skrifuð á dulmáli en þú bara getur ekki ráðið það?

Fá dulmál í mannkynssögunni hafa verið eins flókin og dulmálið sem kom úr þýsku dulmálsvélinni Enigma í seinni heimsstyrjöldinni. Fljótt á litið virkaði þessi litla tölva, sem leit út eins og skrítin ritvél, ekkert svo merkileg. En annað átti eftir að koma á daginn. Þjóðverjar notuðu hana til að senda skilaboð sín á milli um allan heim. Þetta gátu verið skilaboð um hvað sem er; hvert væri næsta skotmark, hvert hersveitir ættu að fara og svo framvegis. Með öðrum orðum: Merkilegar og hættulegar upplýsingar. Og það var í raun allt í góðu þótt að einhverjir aðrir kæmust yfir skilaboðin vegna þess að þau voru svo svakalega vel dulkóðuð að enginn gat skilið þau. Þangað til stærðfræðingurinn Alan Turing og hans teymi komu til sögunnar. Þeir smíðuðu tölvu sem gat ráðið dulmálið. Og ég segi það kæruleysislega, eins og það hafi ekki verið neitt mál, en þetta tók mörg ár og á sama tíma dóu ótalmargir í stríðinu. Þegar bandamenn gátu loksins ráðið dulmálið með hjálp Turing og tölvunnar nýttist hún sérstaklega vel við leit að þýskum kafbátum, sem margir hverjir voru faldir hér og þar um heimshöfin. Kannski voru meira að segja kafbátar hér við Íslandsstrendur – sem enginn vissi af. Hver veit?