Saga tölvunnar: Gervigreind

Í kvikmyndum, bókum og tölvuleikjum er gervigreind oftast eitthvað stórhættulegt; forrit sem er orðið meðvitað um sjálft sig og fer að taka sjálfstæðar ákvarðanir. En hversu raunveruleg er gervigreind?

Það er talað um gervigreind þegar tölva skilur umhverfi sitt og getur tekið sjálfstæðar ákvarðanir byggðar á þeim upplýsingum sem hún hefur sankað að sér. Við erum ekki enn á þeim stað að til sé gervigreind í tölvu sem við getum bara spjallað við eins og manneskju … en við erum samt að færast svolítið nálægt því. Siri-forritið í vörunum frá Apple er til dæmis ágætis dæmi um það. Þú getur spurt hana alls kyns spurninga og hún svarar þér. Hún svarar endilega ekkert alltaf rétt, en hún svarar þó. Þá er árlega haldin keppni þar sem forritarar geta reynt að sigrast á svokölluðu Turing-prófi, þar sem þeir mæta með forrit sem þykjast vera alvöru manneskja. Sérstök dómnefnd, sem ekki fær að sjá hvort hún sé að tala við manneskju eða tölvu, situr í öðru herbergi og reynir að ákveða sig. Árið 2014 tókst tölvunni Eugene Goostman að sigrast á Turing-prófinu, þegar hún náði að sannfæra 33% þeirra sem voru að halda prófið að hún væri 13 ára strákur frá Úkraínu. Það eru þó ekki allir sammála um hvort að Goostman hafi í raun sigrast á prófinu og segja að þótt 33% hafi haldið að forritið væri manneskja, voru samt 66% sem létu ekki plata sig.