Saga tölvunnar: Skemmtileg mistök?

Allir gera mistök – þess vegna setja þeir strokleður á hvern einasta blýant. Við hönnun og þróun tölvunnar og forrita hafa verið gerð ótalmörg mistök. Við skulum rifja upp nokkur þeirra.

Árið 2004 fór allt á aðra hliðina þegar Barnaverndarstofa Bretlands byrjaði að nota nýjan hugbúnað. Vegna óviðráðanlegra orsaka byrjuðu ótal villur að skjóta upp kollinum sem endaði m.a. á því að stýrikerfið borgaði 1,9 milljónum manna[M1]  of mikið, borgaði 700 þúsund manns of lítið og 36 þúsund nýjar umsóknir pikk-festust í kerfinu, svo eitthvað sé nefnt. Þessar villur kostuðu breska borgara meira en einn milljarð Bandaríkjadala.

Morris-ormurinn svokallaði var fyrsti vírusinn sem dreifði sér með því að nota Internetið. Robert T. Morris, maðurinn sem skrifaði vírusinn, var 23 ára gamall þegar hann setti vírusinn á Netið og hefur alltaf sagt að hann átti ekki að dreifa sér svona svakalega. Þetta átti bara að vera smá tilraun. Annað kom þó á daginn. Ormurinn fór af stað, fjölgaði sér sjálfur og endaði á því að sýkja yfir 60 þúsund tölvur sem þá voru tengdar Interneti níunda áratugarins, ARPA-netinu. Þetta var ein af hverjum tíu tölvum sem voru nettengdar á þeim tíma. Kostnaðurinn við að ormahreinsa tölvurnar gat verið hár og fólk var ekki hresst. Morris var dæmdur til að greiða háa sekt.

NASA sendi geimfar til Mars árið 1998 sem átti að rannsaka rauðu plánetuna. Það gekk þó ekki betur en svo að geimfarið bilaði, vegna villu í hugbúnaði og ekki var hægt að bjarga því. Sem betur fer var farið mannlaust. Það er þó ekki bara hægt að kenna forritinu um þessa villu, þar sem hún fólst í því að sumir þeirra sem bjuggu forritið til voru að notast við metrakerfið og aðrir reiknuðu allt í fetum. Geimfarið kostaði 125 milljónir Bandaríkjadala.
En við megum auðvitað ekki gleyma mistökunum sem við, notendurnir, gerum. Við erum langt frá því að vera fullkomin. Við gleymum til dæmis stundum að vista skjölin okkar, opnum vírusa sem einhver hefur sent okkur í póstinum, hlöðum einhverju inn á tölvuna sem við höfum ekki hugmynd um hvað er og svo er það auðvitað fólkið sem fer með símann sinn á baðherbergið og missir hann í klósettið.
Við skulum þó ekki hrista höfuðið yfir þessum mistökum, hvorki okkar né þeirra sem gera tölvurnar og forritin. Mistökin eru til þess að læra af þeim.