Um micro:bit

BBC micro:bit er mjög einföld tölva. Hún er forrituð með því að nota annað tæki (snjallsíma, spjaldtölvu, borðtölvu, iPad o.sv.frv.) til að skrifa forrit sem er svo þýtt og hlaðið niður á BBC micro:bit tækið. Síðan má taka forritað BBC micro:bit úr sambandi við tækið og þá keyrir það forritið eins og önnur forrituð tæki: til dæmis stafrænt úr, GPS-tæki eða vasareiknir. 

Á tækinu er skjár með 25 LED-ljósum og einföld stjórntæki sem nota má á ýmsa vegu. Tækið er svo lítið að hægt er að hafa það í vasa eða ganga með það á sér. 

BBC micro:bit kynnir forritun og sköpun á þægilegan hátt: kveikja á tækinu, forrita það til að gera eitthvað sniðugt, ganga með tækið, sníða það að eigin þörfum og koma nýjum hugmyndum í framkvæmd. Hægt er að forrita tækið svo það sýni orð eða myndir, segi hvað klukkan er eða spili leiki. 

Tækinu er ætlað að vera fyrsta skrefið í að vekja áhuga ungs fólks á forritun svo skrefin að flóknari búnað verði auðveldari. Í BBC micro:bit er hröðunarmælir sem nemur hreyfingu og það getur tengst öðrum búnaði á borð við Arduino, Galileo og Raspberry Pi. 

Með tækinu er einfalt að fara frá því að forrita með sjónrænu forritunarmáli á skjá yfir í flóknari textaforritun. 

BBC micro:bit er með bluetooth-tengingu svo það geti tengst fleiru en tölvum og snjallsímum, til dæmis ísskápum, bílum og fleiri tækjum.

 Hér má sjá framhlið tölvunnar. Þar eru tveir forritanlegir takkar (A og B), 25 LED-ljós ásamt mismunandi gáttum þar sem tengja má aðra ytri nema eins og hitamæla, rakamæla og stjórnbúnað – t.d. sem gangsetur hreyfil. Nemendur geta notað slíkan búnað til að hanna verkefni, til dæmis tæki sem minnir á að vökva plöntur.

Framhlið

Á bakhlið tölvunnar er að finna aðra hluti eins og bluetooth-loftnet, USB-tengi, stöðuljós, áttavita, hröðunarmæli, örgjörva og „reset“ hnapp sem endurræsir tölvuna.

 

Bakhlið

Núna höfum við kynnt okkur Micro bit smátölvuna. Treystið þið ykkur til að útskýra fyrir öðrum þessa smátölvu?