Upp á eigin spýtur: stóll

Búðu til stól, skref fyrir skref!

Það sem þú þarft er:

  • sög
  • spýtur - eina langa spýtu í fætur og eina flata plötu í sæti
  • nagla
  • hamar
  • málband
  • málningu
  • pensil

 

Það er góð regla að velja sér vinnusvæði þar sem þú hefur nóg pláss og næði. Svo er gott að vera í vinnufötum, ef ske kynni að málningin slettist á þig!

Saga spýtur í fætur og sæti

Fyrst skaltu ákveða hvort þú viljir hafa þrjá, fjóra eða sex fætur á stólnum. Næst máttu saga spýturnar niður úr löngu spýtunni þinni, svo úr verði jafnlangir fætur. Því næst skaltu taka plötuna og saga rétt form á sætið, hvort sem það er þríhyrningur, ferningur eða hringur. Það getur verið snúið að saga kringlótta spýtu, en það er allt hægt með æfingunni!

Negla stólinn saman

Mundu að það er gott að tylla naglanum fyrst, áður en þú byrjar að negla. Þegar maður neglir nagla þá styður maður við hann með annari hendi og miðar beint á hausinn. Þú gætir líka þurft að búa til stuðning að neðan, ef þú ákveður að hafa þrjá fætur. Best er að prófa sig áfram með því að styðja hendinni ofan á sætið. Einn til tveir naglar á hvern fót nægja og gættu þess að naglinn fari alveg niður í plötuna, annars geta fötin rifnað þegar maður sest - svo það er eins gott að negla duglega!

Mála stólinn

Þá er að velja uppáhaldslitinn sinn. Eins og þú sérð í myndbandinu valdi ég tvo skemmtilega liti, þú mátt velja þrjá eða níu eða bara einn! Hvað sem þér þykir skemmtilegast. Gættu þess að setja ekki of mikla málningu í pensilinn í einu, annars sullast yfir allan stólinn. Það er gott að hafa plast eða dagblöð undir á meðan þú málar og líka blauta tusku til taks ef allt fer út um allt. Gangi þér vel!

Stólinn minn er kannski ekki meistaraverk en það er vel hægt að nota hann! Sendu mér mynd af stólnum þínum á uppaeiginspytur@ruv.is, ég hlakka til að sjá hvernig þér tekst til - upp á eigin spýtur!